Saga Capital semur við Þekkingu hf.

Saga Capital og Þekking gengu nýverið til samninga um alhliða þjónustu Þekkingar á tölvukerfum Saga Capital. Um er að ræða umfangsmikinn samning sem felur í sér rekstur, viðhald og hýsingu á öllum tölvu-, hugbúnaðar- og stýrikerfum hjá Saga Capital og aðstoð við notendur.Þekking mun annast rekstur á vinnustöðvum, netþjónum, netbúnaði og jaðartækjum fyrir Saga Capital.   Í þessu felst að Þekking hefur umsjón og eftirlit með virkni alls þessa búnaðar, auk þess að sjá um allt viðhald á honum og nýjar uppsetningar með tilheyrandi hugbúnaði. Jafnframt þessu mun Þekking hýsa öll miðlæg upplýsingakerfi Saga, þar á meðal hópvinnu- og tölvupóstkerfi, gagnagrunna og heimasíðu.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital: “Að undanförnu hefur Þekking aðstoðað okkur við uppbyggingu á tölvukerfum okkar. Það má því segja að það hafi verið rökrétt framhald af þessu samstarfi að ganga til samninga við Þekkingu um þjónustu tengda rekstri og hýsingu á tölvukerfum Saga Capital”
Saga Capital er fjárfestingafélag, sem stofnað var í október á síðasta ári og hefur höfuðstöðvar á Akureyri. Saga Capital hefur sótt um starfsleyfi sem fjárfestingarbanki og er sú umsókn til afgreiðslu hjá Fjármálaeftirlitinu. Saga Capital mun leggja áherslu á sérvalin verkefni á fyrirtækjamarkaði, samruna og yfirtökur, fjárfestingalán, útlán og meðfjármögnun, stöðutöku á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum og viðskiptavakt með hlutabréf og skuldabréf. Starfsmenn Saga Capital eru nú 10 talsins.