Samtök Atvinnnulífsins telja uppbyggingu Kjalvegar afskaplega mikilvæga framkvæmd

Kynntar hafa verið athuganir á gerð svokallaðs Norðurvegar. Veginum er ætlað að liggja frá Gullfossi um Kjöl milli Hofsjökuls og Langjökuls og tengjast hringveginum við Silfrastaði í Skagafirði. Sjá meira á www.nordurvegur.isÞessar athuganir hafa verið gerðar af frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja sem stofnað hafa sérstakt félag til að hafa forystu um framkvæmdina.  Æskilegt er að hafist verði handa við gerð umhverfismats þannig að í ljós komi hvort vegurinn muni skila jákvæðri niðurstöðu þegar litið er til áhrifa á samfélag, efnahag og umhverfi og um leið fyrir sjálfbæra þróun íslensks samfélags. Niðurstaða matsins verði svo látin ráða því hvort í framkvæmdina verði ráðist.

Mikil samgöngubót
Ekki þarf að lýsa í mörgum orðum þeirri samgöngubót sem í framkvæmdinni felst en leiðin milli Selfoss og Akureyrar mun styttast um 140 kílómetra. Vegalengd milli stórs hluta Norður- og Norðausturlands og Reykjavíkur mun styttast um tugi kílómetra. Álag á vegakerfið inn og út úr Reykjavík getur minnkað og dreifst þegar ekki þarf að aka til Borgarness frá Selfossi til að komast til Akureyrar eða til baka. Búsetuskilyrði á stórum svæðum munu batna frá því sem nú er og áhrif á byggðir og samfélag verða mun meiri en menn gera sér grein fyrir í fljótu bragði.
Umferðaröryggi mun aukast, slysum og óhöppun fækka, umferð flutningabíla sem nú veldur mörgum áhyggjum mun dreifast, flutningskostnaður mun lækka, eldsneytisnotkun minnka, ferðaþjónusta á Suðurlandi og Norðurlandi og á hálendinu getur styrkst og almenningur öðlast aukið aðgengi að hálendinu.