Starfsemi hafin í Hafnarstræti 98

Atvinnustarfsemi er hafin í friðuðu húsi við Hafnarstræti 98 á Akureyri
sem byggt var árið 1923 og gekk á sínum tíma undir nafninu Hótel Akureyri. Húsið mun hér eftir þjóna sínum upphaflega tilgangi en fyrirtækið Akureyri Backpackers mun reka þar gistingu og veitingasölu. Endurgerð hússins hefur staðið yfir frá miðju síðasta ári í góðu samstarfi við húsafriðunarefnd en húsið er að stórum hluta til í eigu KEA.  Nýjar byggingateikningar gerði Sara Axelsdóttir, arkitekt, en útlitshönnun innanhúss var í höndum Ingu Lilju Ólafsdóttur og Geirs Gíslasonar ásamt fleirum.

Fyrir hönd eigenda hússins segist Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, ákaflega ánægður með það hvernig til hefur tekist.  "Nú horfum við fram á það að í fallega uppgerðu húsi á áberandi stað verði myndarleg og mikilvæg starfsemi sem mun lífga verulega upp á miðbæinn, en það hefur verið markmið eigenda hússins frá upphafi að þarna gæti orðið nýr og atvinnuskapandi rekstur.  Endurbætur hússins hafa farið fram úr björtustu vonum og hönnuðir hafa leyst verkefnið listavel, jafnframt því að koma beint að endurbótunum.  Við getum ekki verið annað en bjartsýn á starfsemina í þessu fallega húsi og óskum rekstraraðilanum velfarnaðar í sínum störfum," segir Halldór.

Í húsinu er boðið upp á gistingu fyrir um eitthundrað gesti og allt að fjögur rúm í hverju herbergi.  Áhersla er  lögð á snyrtilega aðstöðu á hagstæðu verði.  Á jarðhæð hússins er upplýsingamiðastöð fyrir ferðamenn en einnig veitingasala sem opin er alla daga og þá hefur Geysir opnað þar verslun.  Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Akureyri Backpackers, segist mjög sáttur við hvernig til hefur tekist.  "Við höfum lagt mikla áherslu á að halda í allt það gamla eins og kostur er en jafnframt endurnýjað og bætt það sem nauðsynlegt er í þágu starfseminnar. Hér er boðið upp á hagstæða gistingu allt árið og á jarðhæðinni verður rekin veitingasala innan tíðar en barinn hefur þó verið opnaður. Við Inga Lilja nutum hjálpar frá góðu fólki við að hanna þetta að innan og kunnum öllum bestu þakkir fyrir.  Við heyrum ekki annað en allir séu mjög sáttir við það sem hér hefur gerst og lítum björtum augum fram á veginn," segir Geir.