Stjórn KEA kjörin á aðalfundi í dag

Aðalfundur KEA var haldinn í Ketilhúsinu á Akureyri í dag en auk venjulegra aðalfundarstarfa flutti Arngrímur Jóhannsson erindi á fundinum undir yfirskriftinni “Uppbygging íslensks fyrirtækis á erlendum markaði”.   Á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar eftir aðalfund var Hannes Karlsson kjörinn formaður stjórnar.

Ein samþykktarbreyting var gerð á fundinum þar sem firmanafni félagsins var breytt úr Kaupfélag Eyfirðinga svf í KEA svf og segir Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA að breytingin sé eðlileg í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á síðustu árum á umhverfi og starfsemi félagsins en þær felast m.a. í því að starfssvæðið hefur stækkað og nær það nú yfir Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur auk þess sem félagið er ekki kaupfélag í eiginlegum skilningi þess orðs.  Á fundinum var einnig ákveðið að greiddur yrði út arður til þeirra félagsmanna sem voru félagsmenn þann 28. mars síðast liðinn.  Í hlut hvers félagsmanns koma kr.3.578  og kemur útborgun til framkvæmdar á haustmánuðum.
Þeir stjórnarmenn sem voru í kjöri nú voru Benedikt Sigurðarson, Björn Friðþjófsson, Hannes Karlsson og Úlfhildur Rögnvaldsdóttir.  Öll voru þau endurkjörin og munu þau skipa stjórn KEA næsta árið ásamt þeim Soffíu Ragnarsdóttur, Jóhannesi Ævari Jónssyni og Halli Gunnarssyni sem kosin voru til tveggja ára á síðasta aðalfundi.

Varamenn til eins árs voru kosin Njáll Trausti Friðbertsson, Steinþór Ólafsson og Guðný Sverrisdóttir.  Á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar strax eftir aðalfund var  Hannes Karlsson kjörinn formaður stjórnar KEA,  Björn Friðþjófsson var endurkjörin varaformaður og  Jónhannes Ævar Jónsson ritari.