Vaðlaheiðargöng njóta mikils stuðnings samkvæmt könnun

Stjórn Greiðrar leiðar ehf. boðaði til blaðamannafundar í dag þar sem þeir kynntu könnun varðandi Vaðlaheiðargöng. Fram kom í máli stjórnarinnar á fundinum að það vantaði vilja ríkisstjórnar til að hefja framkvæmdir.Samgönguráðherra vísi á Vegagerðina í málum sem Vegagerðin hefur ekki ákvarðana vald í, málum eins og óskir Greiðrar leiðar um niðurfellingu virðisaukaskatts af framkvæmdakostnaði líkt og gert var í Hvalfjarðargöngunum, ríkisábyrgð á lánum og að ríkið komi að framkvæmdinni með stofnfjárframlagi uppá 750 milljónir, en um þetta þarf að setja lög á Alþingi. Vaðlaheiðagöngin fóru inná samgönguáætlun fyrir árin 2007-2010 með ákvæði um sérstaka fjármögnun og  300 milljón króna framlagi sem deilist á árin 2008-2010 og gerir þá úti um vonir Greiðar leiðar ehf. um að hefja framkvæmdir í ár.

Yfirgnæfandi stuðningur við Vaðlaheiðargöng
- samkvæmt könnun sem Capacent hefur unnið fyrir Greiða leið ehf.

Að beiðni Greiðrar leiðar ehf. hefur Capacent unnið viðhorfskönnun meðal íbúa í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu og er meginniðurstaða hennar sú að 92% svarenda telja mikilvægt að gerð verði jarðgöng undir Vaðlaheiði. Þetta er afgerandi skoðun íbúa á svæðinu og verður að telja afar fátítt að svo viðamikið verkefni í samgöngumálum njóti svo víðtæks stuðnings almennings.

Í úrtaki könnunarinnar voru 2000 manns á aldrinum 17-75 ára. Spurt var: Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér fyrir Eyjafjarðarsvæðið og Þingeyjarsýslur að gera göng undir Vaðlaheiði? Könnunin leiddi í ljós að 76,3% töldu mjög mikilvægt að ráðast í þessa framkvæmd og 15,4% töldu það frekar mikilvægt.  Um 8% svarenda svöruðu “hvorki né”, “frekar lítilvægt” eða “mjög lítilvægt” .
Meðal annarra niðurstaðna í könnuninni má nefna að mikill meirihluti svarenda taldi að ferðum milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna myndi fjölga með tilkomu Vaðlaheiðarganga.

Upphaf verkefnisins
Á árunum 2001 og 2002 hófst umræða á vettvangi Eyþings – sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum  um hvort fýsilegt væri að hefja undirbúning að gerð Vaðlaheiðarganga og stofna félag um verkefnið. Sú varð niðurstaða nefndar á vegum Eyþings og í kjölfarið, nánar tiltekið 28. febrúar 2003, var félagið Greið leið ehf. stofnað með þátttöku allra sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og nokkurra fyrirtækja. Tilgangur Greiðrar leiðar var og er að vinna að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Í því felst m.a. að annast  áætlanagerð, rannsóknir og samninga við ríki og fjárfesta auk þess að standa fyrir framkvæmdum og rekstri ganganna. 

Undirbúningur
Á síðustu árum hefur markvisst verið unnið að undirbúningi að gerð Vaðlaheiðarganga. Fyrir liggja ítarlegar upplýsingar og skýrslur um verkefnið.

Allar þær rannsóknir sem eru að baki hafa leitt í ljós að Vaðlaheiðargöng eru þjóðhagslega arðsöm framkvæmd, tæknilega framkvæmanleg og hefði mikil og jákvæð samfélagsleg áhrif.

Skipulagsstofnun hefur kveðið upp úr um að göngin séu ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Frá byrjun hefur Greið leið upplýst samgönguyfirvöld og þingmenn kjördæmisins um þá vinnu sem félagið hefur lagt í auk þess sem ítrekað hefur verið gerð grein fyrir nauðsynlegri aðkomu ríkisins til að tryggja framgang verkefnisins. Fyrir liggur og hefur legið fyrir frá upphafi að í gerð Vaðlaheiðarganga verður ekki ráðist nema með aðkomu ríkisins.

Samgönguáætlun 2007-2010
Í samgönguáætlun sem samþykkt var á nýliðnu þingi eru Vaðlaheiðargöng meðal þeirra framkvæmda sem gert er ráð fyrir að fjármagnaðar verði með svokallaðri sérstakri fjármögnun. Í áætluninni er ekki tekin afstaða til þess með hvaða hætti fjár verði aflað, en áætlaðar 300 milljónir króna til Vaðlaheiðarganga sem deilist á árin 2008 – 2010. Öll vinna félagsins hefur miðað að því að hafist yrði handa við framkvæmdir við jarðgöngin á árinu 2007 og að þau yrðu opnuð í árslok 2010.  Af því getur ekki orðið og það eru stjórn Greiðrar leiðar mikil vonbrigði.

Stjórn Greiðrar leiðar hefur allar götur frá árinu 2005, á fundum með samgönguyfirvöldum og þingmönnum, lagt fram hugmyndir sínar um aðkomu ríkisins að framkvæmdinni, sem forsendur þess að í gerð ganganna verði ráðist:

· Að virðisaukaskattur verði felldur niður af framkvæmdakostnaði líkt og gert var í Hvalfjarðargöngum, enda gert ráð fyrir innheimtu veggjalda með vsk.
· Að ríkið veiti ábyrgð á lánum Greiðrar leiðar að hluta eða öllu leyti.
· Að ríkið taki þátt í framkvæmdakostnaði með stofnframlagi.
· Að Greið leið ehf. fái heimild til reksturs ganganna og um leið gjaldtöku í 25 ár, með heimild til framlengingar ef þörf krefur. Að þeim tíma liðnum fái ríkið göngin afhent endurgjaldslaust á grundvelli þess að ríkið aðstoði við gerð þeirra.
· Að ríkið kosti gerð vega utan gangamunna. Vegagerðin hefur þegar látið hanna vegina.
 
Stjórn Greiðrar leiðar vill undirstrika að ekki verður ráðist í framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng, þar með talda fjármögnun og lokahönnun, fyrr en aðkoma ríkisins hefur verið tryggð. Það liggur ljóst fyrir, og hefur raunar legið fyrir lengi, að aðkoma ríkisins þarf að vera umtalsvert meiri en sem nemur þeim 300 milljónum króna sem gert er ráð fyrir í nýlega samþykktri samgönguáætlun. Ef nýsamþykkt samgönguáætlun stendur óbreytt á næsta kjörtímabili er óhætt að fullyrða að afar litlar líkur eru til þess að af verkefninu verði í bráð.
Hluthafar í Greiðri leið hafa lagt fram verulega fjármuni í formi hlutafjár til undirbúnings að gerð Vaðlaheiðarganga. Til þessa hefur undirbúningsvinna á vegum Greiðrar leiðar vegna Vaðlaheiðarganga kostað um 65 milljónir króna á verðlagi hvers árs.  Fyrir hluthafa Greiðrar leiðar er því mikið í húfi að framkvæmdir geti hafist sem fyrst.