Vefsíða Vikudags opnuð

Föstudaginn 19 janúar var ný vefsíða Vikudags opnuð á vefslóðinni www.vikudagur.is . Vikudagur hefur til þessa ekki verið með sérstaka fréttavefsíðu, en stefnir að því að margfalda þjónustuna við lesendur sína með tilkomu frétta-og upplýsingavefsins. Blaðið og vefurinn munu vinna saman og veita heildstæða fréttaþjónustu þar sem vefur mun fylla upp í skörð sem blaðið skilur eftir og blaðið mun bæta inn í og fullkomna þá mynd sem fram kemur á vefnum.

Fréttavefurinn keyrir á vefumsjónarkerfinu Moya frá Stefnu.  Blaðamenn blaðsins munu sjá um að skrifa inn á hann og daglega verða settar inn fréttir og upplýsingar sem skipta lesendur máli. 

Meðal nýjunga sem teknar verða upp á vefsvæðinu http://www.vikudagur.is/ má nefna sérstaka bíla og umferðarumfjöllun sem Úlfar Hauksson framkvæmdastjóri og bílaáhugamaður mun fjalla um. Þá verða birtar mataruppskriftir úr Matarkróki Vikudags sem hafa verið sérstaklega vinsælar.