Vegna ályktunar Kaupmannasamtaka Akureyrar um fríðindakort KEA

Í ljósi mjög jákvæðra viðbragða verslunar- og þjónustuaðila á starfssvæði KEA gagnvart fyrirhugaðri útgáfu fríðindakorts kemur ályktun Kaupmannafélags Akureyrar á óvart. KEA hefur boðið öllum verslunar- og þjónustuaðilum á starfssvæði sínu aðild að kortinu og hafa viðbrögðin verið framar björtustu vonum.Útgáfa fríðindakorts er í samræmi við ákvæði í samþykktum félagsins þar sem kveðið er á um að KEA afli félagsmönnum sínum viðskiptakjara. Það vekur nokkra undrun að Kaupmannasamtök Akureyrar skuli ekki álykta gegn fríðinda- og afsláttarkortum almennt en þau eru fjölmörg og alþekkt að stórir hópar, stéttarfélög og félagasamtök sækja sér afsláttarkjör til verslunar- og þjónustuaðila. Fríðindakort KEA er í engu frábrugðið öðrum vildar- og tryggðarkortum, aðkoma félagsins felst aðeins í því að afla afslátta og annarra viðskiptakjara með heildarhagsmuni félagsmanna að leiðarljósi. KEA vinnur í þágu eigenda sinna sem eru félagsmenn. Á síðustu vikum hafa tæplega 2.000 nýir einstaklingar gerst félagsmenn og eru þeir í heildina orðnir 9.500 talsins. KEA er afar þakklátt fyrir þessar góðu og almennu viðtökur fyrirtækja og almennings á félagssvæðinu.