Samþykktir fyrir starfsemi félagsdeilda KEA - í samræmi við samþykktir félagsins
1. grein
Allir lögráða einstaklingar sem eiga lögheimili á félagssvæðinu geta orðið fullgildir félagsmenn í KEA. Einstaklingar undir lögræðisaldri, sem búsettir eru á félagssvæðinu, geta einnig orðið félagsmenn með ábyrgð forráðenda sinna og þeim takmörkunum varðandi trúnaðarstörf sem lög ákvarða. Til þess að öðlast kjörgengi og atkvæðisrétt á deildafundi verður félagsmaðurinn að hafa verið skráður félagsmaður í KEA í a.m.k. tvo mánuði.
2. grein
Félagið skiptist í félagsdeildir, sbr. 10. gr. samþykkta KEA. Skal hver félagsmaður vera skráður í félagsdeild þar sem hann á lögheimili á hverjum tíma. Þeir einstaklingar sem flutt hafa burt af félagssvæðinu geta áfram verið skráðir félagar KEA en skulu ekki vera félagar einstakra deilda en hafa aðgang að fundum þeirrar félagsdeildar þar sem þeir áttu síðast lögheimili á félagssvæðinu - með málfrelsi og tillögurétti.
3. grein
Hlutverk félagsdeilda er að vera vettvangur félagsmanna til fulltrúakjörs og til fundahalda og miðlunar upplýsinga. Skal félagsstjórn sérstaklega kappkosta að gera félagsdeildum mögulegt að starfa og láta til þess í té upplýsingar og gögn sem auðveldað geta félagsmönnum að hafa virk áhrif á skipulag, stefnu og starfshætti félagsins. Félagsstjórn skal veita öllum félagsmönnum greinargóðar upplýsingar um starfsemi félagsins og gæta þess að burtfluttir félagsmenn hafi aðgang að upplýsingum um málefni félagsins sem þá kann að varða sérstaklega.
4. grein
Á félagssvæðinu starfa fimm deildir;
Akureyrardeild sem í eru félagsmenn með lögheimili á Akureyri.
Út-Eyjafjarðardeild sem í eru félagsmenn með lögheimili í Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð, Siglufirði og Hrísey og auk þess félagsmenn með lögheimili í Grímsey.
Vestur- Eyjafjarðardeild sem í eru félagsmenn úr Hörgársveit auk íbúa í Akrahreppi í Skagafirði sem eru félagsmenn í KEA.
Austur-Eyjafjarðardeild sem í eru félagsmenn með lögheimili í Svalbarðsstrandarhreppi og Grýtubakkahreppi og félagsmenn með lögheimili í Eyjafjarðarsveit.
Þingeyjardeild sem í eru félagsmenn með lögheimili austan Vaðlaheiðar að eystri sveitar-félagamörkum Skútustaðahrepps, Norðurþings og Langanesbyggðar eins og þau eru árið 2013.
5. grein
Í hverri deild skal halda aðalfund ár hvert - áður en aðalfundur félagsins er haldinn og skal deildarstjórn í samráði við félagsstjórn hafa frumkvæði að fundarboðun. Aukafund skal halda, ef deildarstjórn telur þörf á eða 20% deildarmanna óska skriflega eftir því. Deildarfundur er lögmætur ef hann er boðaður með opinberri auglýsingu með tveggja sólarhringa fyrirvara, en aðalfund deildar skal boða með viku fyrirvara. Á aðalfundi félagsdeildar skal félagsstjórn gera félagsmönnum grein fyrir hag félagsins og rekstri, fyrirhuguðum framkvæmdum og öðru því er máli skiptir. Á fundinum hafa allir félagsmenn innan deildar málfrelsi og atkvæðisrétt. Deildarfundi skal jafnan boða með opinberri auglýsingu og á heimasíðu félagsins. Dagskrá deildarfundar skal koma fram í fundarboði. Á fundum deilda hafa allir stjórnarmenn og varastjórnarmenn KEA málfrelsi og tillögurétt.
6. grein
Á aðalfundi deildar skal kosin deildarstjórn.
Í Akureyrardeild skal deildarstjórn skipuð 7 mönnum sem allir eru kosnir til þriggja ára. Deildarstjóri skal kosinn beinni kosningu samkvæmt tilnefningu og á hverju ári skulu kjörnir tveir aðalmenn í stjórn. Kjörnir skulu tveir varamenn í stjórn til eins árs í senn.
Í öðrum deildum með 1000 félagsmönnum eða fleiri skal kjörin 5 manna deildarstjórn en í deildum með færri en 1000 félagsmenn skal kjörin 3ja manna deildarstjórn. Deildarstjóri skal kosinn beinni kosningu samkvæmt tilnefningu. Meðstjórnendur skulu kosnir samkvæmt tilnefningu til þriggja ára og ennfremur skulu kosnir 2 varamenn til eins árs í senn. Stjórnin kýs varadeildarstjóra úr sínum hópi.
Hver félagsmaður er skyldur að taka kosningu í sinni deild til eins kjörtímabils og ef hann skorast ekki undan endurkosningu, má endurkjósa hann svo oft sem vill. Á aðalfundi deildarinnar skal deildarstjóri gera grein fyrir störfum sínum og starfsemi deildarstjórnar undanfarið ár.
7. grein
Störf deildarstjórna skulu einkum beinast að því að efla tengsl félagsmanna við félagið og fylgja eftir hagsmunum þeirra gagnvart stjórn félagsins. Jafnframt getur deildarstjórn haft frumkvæði að tillögugerð og umræðum sem snerta starfshætti, stefnumótun, markmiðssetningu og skipulag félagsins og hvernig félagið tekur þátt í eflingu byggðafestu, nýsköpun atvinnu og framþróun menningar og mannlífs á félagssvæðinu.
Deildarstjórnir skipa fulltrúaráð félagsins og skal félagsstjórn kalla fulltrúaráð saman til fundar og til upplýsingagjafar eigi sjaldnar en einu sinni á ári.
Félagið greiðir einstökum deildarstjórnum þóknun fyrir störf sín samkvæmt ákvörðun félags-stjórnar enda hafi skýrsla deildarstjóra borist til félagsstjórnar.
8. grein
Hver deild hefur rétt til að senda fulltrúa á aðalfundi og fulltrúafundi félagsins, þannig að fyrir hverja 100 deildarmenn eða byrjaða þá tölu er einn fulltrúi. Deildarstjóri er sjálfkjörinn fyrsti fulltrúi, en aðrir fulltrúar skulu kosnir eftir tilnefningu á aðalfundi deildarinnar til eins árs í senn.
Félagið greiðir fulltrúum þóknun fyrir fundarsetu samkvæmt ákvörðun félagsstjórnar.
9. grein
Aðalfundur deildar og/eða deildarstjórn getur kallað til samstarfs um málefni deildarinnar og félagsins hvern þann félagsmann sem á lögheimili á starfssvæði deildarinnar. Þannig getur aðalfundur eða deildarstjórn stofnað til nefndarstarfa og starfshópavinnu - eftir því sem félagsmenn gefa kost á slíku. Ekki stofnast þó greiðsluskylda hjá félaginu vegna slíkra starfa nema um slíkt hafi verið samið fyrirfram við aðalstjórn félagsins og/eða framkvæmdastjóra í umboði stjórnar.
10. grein
Deildir hafa ekki sjálfstæða tekjustofna - en eigur þeirra varðveitast í umboði deildarstjórnar og með aðstoð skrifstofu félagsins í samráði við framkvæmdastjóra.
Deildarstjóri ber ábyrgð á fjárreiðum deildar og uppgjöri - en kostnaður vegna reglulegrar starfsemi deilda, svo sem aðalfunda og þeirra funda sem boðað er til að frumkvæði félagsstjórnar, skal greiða af félaginu. Skrifstofa KEA annast uppgjör fyrir deildir og greiðir kostnað vegna reglulegrar starfsemi deildarstjórna - þar með talinn kostnað við fundi í fulltrúaráði félagsins. Um tilhögun fastra funda og ferða á vegum deildarstjórna skal deildarstjóri hafa samráð við skrifstofu félagsins og leita samstarfs um aukafundi og aðra starfsemi sem getur haft kostnað í för með sér.
Þannig samþykkt á aðalfundi KEA 27. maí 2021